Enski boltinn

Tíu leikmenn Newcastle gerðu jafntefli við Man City

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leikmenn Newcastle mótmæla eftir að Rob Styles dæmdi vítaspyrnu og lyfti rauða spjaldinu snemma leiks.
Leikmenn Newcastle mótmæla eftir að Rob Styles dæmdi vítaspyrnu og lyfti rauða spjaldinu snemma leiks.

Einn leikur var í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Newcastle og Manchester City gerðu 2-2 jafntefli í skemmtlegum leik.

Manchester City tók forystuna með marki Robinho úr vítaspyrnu strax á 12. mínútu. Vítaspyrnudómurinn var virkilega umdeildur en Habib Beye fékk rauða spjaldið fyrir að brjóta á Robinho þó endursýningar hafi sýnt að hann fór í boltann.

Shola Ameobi jafnaði með skringilegu marki rétt fyrir hálfleik. Boltinn þeyttist af leikmönnum í teignum eins og hann væri í kúluspili. Hann féll síðan fyrir fætur Ameobi sem hitti hann illa en inn fór hann.

Þrátt fyrir að vera einum fleiri náði Manchester City ekki að nýta sér liðsmuninn og Newcastle tók forystuna á 63. mínútu. Þá varð Richard Dunne fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir hornspyrnu.

En á 86. mínútu jafnaði Stephen Ireland í 2-2 og urðu það lokatölur. Ireland fékk reyndar gott færi til að skora sigurmarkið stuttu síðar en boltinn fór naumlega framhjá.

Manchester City er í 9. - 10. sæti deildarinnar eftir þessi úrslit en Newcastle er hinsvegar í 17. - 19. sæti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×