Enski boltinn

Heiðar vill vera áfram hjá Bolton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar í baráttu við þá Nicky Butt og Alan Smith hjá Newcastle.
Heiðar í baráttu við þá Nicky Butt og Alan Smith hjá Newcastle. Nordic Photos / Getty Images

Heiðar Helguson segir í samtali við Vísi að hann vilji sjálfur vera áfram hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Bolton þó svo að staða hans hjá félaginu sé ekki góð.

„Mín staða er ekkert allt of góð eins og er," sagði Heiðar. „En stundum er þetta bara svona. Ég er til í að vera áfram sjálfur en hef þó ekkert rætt við Megson um mín mál."

„Það er mikið um að vera á bak við tjöldin hjá félaginu og margir starfsmenn farnir. Ég held líka að margir leikmenn séu á leið í burtu en hvort ég verði einn af þeim verður bara að koma í ljós. Það kæmi mér samt ekki á óvart."

Heiðar gekk til liðs við Bolton síðastliðið sumar eftir tveggja ára veru hjá Fulham. Hann skrifaði undir þriggja ára samning.

„Ég á því enn tvö ár eftir af samningi mínum og mér liggur því ekkert á," bætti Heiðar við. Hann náði aðeins að spila átta leiki á tímabilinu, þar af fimm í byrjunarliði, en hann skoraði tvö mörk í þeim leikjum.

Meiðsli hafa verið að hrjá hann allt tímabilið en á mánudaginn gekkst hann undir aðgerð þar sem loksins tókst að komast að rót vandans.

„Ég hef aldrei náð mér almennilega af þessum meiðslum þó svo að ég hafi verið að æfa. En það var bein aftan á hælnum sem þurfti að fjarlægja og vonandi er þetta þar með úr sögunni. Ég ætti að vera orðinn klár þegar undirbúningstímabilið hefst í sumar."

Bolton náði naumlega að bjarga sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinn í vor og segir Heiðar að það hafi verið mikill léttir þegar sætinu var borgið.

„Þetta leit ekkert sérstaklega vel út þegar það voru fimm leikir eftir en þá hrukku þeir í ganga og náðu að redda þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×