Lífið

Sigur Rós æfir í Austurbæ

Sigur Rós við æfingar í dag.
Sigur Rós við æfingar í dag. MYND/GVA

Hljómsveitin Sigur Rós mun senda frá sér nýja plötu þann 23. júní næstkomandi og ber hún nafnið Með suð í eyrum við spilum endalaust. Nú þegar hefur sveitin sett eitt lag á heimasíðu sína handa almenningi til niðurhals en það er opnunarlag plötunnar, Gobbledigook. Sveitin er nú í óða önn að undirbúa sig fyrir allsherjartónleikaferðalag um heiminn sem hefst í næstu viku í Guadalajara í Mexíkó. Af þeim sökum hefur sveitin tekið Austurbæ á leigu og æfir þar tónleikadagskrá sína. Undanfarið hafa síðan bæði innlendir og erlendir blaðamenn litið við í heimsókn. Er þetta í fyrsta sinn sem sveitin æfir sig hérlendis fyrir tónleikaferðalag af þessari stærðargráðu.

Blaðamaður frá Vísi.is leit við á æfingu hjá hópnum í dag og var nóg um að vera. Sveitin hafði sér til aðstoðar fjölmarga aðstoðarmenn en einnig voru á staðnum strengjasveitin amiina og vegleg blásarasveit. Meðlimir Sigur Rósar sögðu að verið væri að undirbúa alla hljóðfæraleikarana og tæknimennina sem koma með þeim á tónleikaferðalagið því allt yrði að vera pottþétt áður en lagt væri í hann. Á æfingunni var oft slegið á létta strengi og greinlegt var að mikil samheldni er í hópnum. Nokkru púðri var þó eytt í að koma ýmsum smáatriðum á hreint og þurfti að margendurtaka suma lagabúta.

Nú þegar hefur verið staðfest að tónleikaferðalagið muni standa út ágúst en meðlimir sveitarinnar þóttust þó vita að túrinn muni allavega standa út árið. Enn hefur ekkert verið staðfest varðandi tónleika hérlendis en Sigur Rósar menn eru fullvissir um að allavega einir stórir tónleikar verði hér á klakanum á árinu. „Þeir verða stórir og flottir en kannski litlir og sætir," útskýrði Georg Hólm, bassaleikari sveitarinnar, fyrir utan Austurbæ í sólskininu í dag.

Hægt er að sjá myndbandið við Gobbledigook og niðurhala laginu hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.