Innlent

Ekki rætt um flatan 10 prósenta niðurskurð í heilbrigðisráðuneyti

MYND/Auðunn

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segir ekki rætt um flatan tíu prósenta niðurskurð í heilbrigðisráðuneytinu og að ríkisstjórnin geri allt sem hún geti til þess að verja velferðarkerfið, þar á meðal heilbrigðisþjónustuna.

Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Þuríðar Backman, þingmanns Vinstri - grænna, í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Þuríður vísaði til bréfs fjármálaráðuneytisins um að ráðuneyti legðu fram tillögur um tíu prósenta sparnað miðað við fjárlög næsta árs vegna efnahagsástandsins. Spurði Þuríður hvort þetta væri forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni og hvort ekki ætti að standa við fyrirheitin um að verja velferðarkerfið. Benti hún enn fremur á að fjölmargar heilbrigðsstofnanir glímdu nú við fjárhagserfiðleika nú þegar og spurði hvort tíu prósenta niðurskurður þýddi skerta þjónustu eða hvort kostnaði yrði velt yfir á sjúklinga.

Guðlaugur Þór sagði breytingar í efnahagslífinu kalla á endurskoðun fjárlagafrumvarps en ekki væri þó verið að ræða um flatan niðurskurð í ráðuneyti hans. Ríkisstjórnin gerði allt til þess að verja heilbrigðiskerfið. Þá sagði hann að hins vegar væri verið að huga að skipulagsbreytingum og ýmsum aðgerðum til þess að fá eins mikla þjónustu og hægt yrði fyrir þá fjármuni sem til væru. Horft hefði verið til nágrannaríkjanna í þessum efnum sem einnig glímdu við þau verkefni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×