Erlent

Fögnuðu nýjum húsbónda við Hvíta húsið

Það var víðar en í Chicago, heimborg Baracks Obama, nýkjörins forseta Bandaríkjanna, sem sigri hans var fagnað. Þannig komu um þúsund manns saman við framtíðarheimili Obama, Hvíta húsið í Washington, og fögnuðu með því að hrópa nafn Obama. Segjast öryggisverðir við Hvíta húsið aldrei hafa séð annan eins fögnuð.

Í Boston söfnuðust þúsundir háskólanema saman á götum úti og létu í ljós ánægju sína með niðurstöður kosninganna en allt fór friðsamlega fram. Þá er talið að um tvö hundruð þúsund manns hafi safnast saman í Grant-garði í Chicago til þess að fagna sigrinum með Obama sjálfum. Þeirra á meðal var spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey sem barist hefur ötullega við hlið Obama.

Þá fagnaði dóttir Dr. Martins Luther King, fyrrverandi baráttumanns fyrir réttindum blökkumanna, sigrinum í Atlanta og sagði að sigurinn þýddi að fórnir móður hennar og föður hefðu ekki verið færðar til neins. „Ég veit að faðir minn yrði mjög stoltur af Bandaríkjamönnum nú," sagði séra Bernice King, en faðir hennar var myrtur 4. apríl 1978.

Fyrrverandi keppinautur Obama innan Demókrataflokksins, öldungardeildarþingmaðurinn Hillary Clinton, samgladdist Obama einnig og sagði um sögulegan sigur að ræða fyrir bandarísku þjóðina. Bandarískir kjósendur hefðu ákveðið að láta í sér heyra og valið breytingar með því að kjósa Obama.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×