Erlent

Sigri Obama fagnað í Kenía með frídegi

MYND/AP

Stjórnvöld í Kenía hafa lýst yfir almennum frídegi þar í landi eftir sigur Baracks Obama í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nótt. Obama á ættir sínar að rekja þangað því faðir hans, Barack Obama eldri, er fæddur þar. Hann lest hins vegar í bílslysi árið 1982.

,,Þetta er merkilegur dagur í sögunni, ekki aðeins fyrir Bandaríkin heldur einnig fyrir Kenía, sagði Mwai Kibaki, forseti Kenía, og bætti við: ,,Sigur Obama er einnig sigur okkar því rætur hans liggja í Kenía."

Þá var mikið fagnað í heimabæ föður Obama í Kenía, Nyangoma-Kogelo. Fylgst var með kosningunum í sjónvarpi og þegar niðurstaðan lá fyrir var dansað á götum úti.

Sigur Obama vekur von í brjósti Keníumanna en þar í landi hefur verið róstursamt síðustu misseri. Obama er gríðarlega vinsæll í landinu og hefur menntaskóli og bjórtegund þegar verið nefnd eftir honum. Þá hefur verið settur upp söngleikur í þjóðleikhúsi landsins um forsetann nýkjörna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×