Enski boltinn

Wenger: Arsenal er skotmark

Nordic Photos / Getty Images

Arsene Wenger segir að hans menn séu teknir óþægilega fyrir bæði af andstæðingum og dómurum í ensku úrvalsdeildinni. Hann segir sitt lið brjóta minnst af sér en fái hinsvegar fleiri áminningar en önnur lið. Þá segir hann brotið meira á sínu liði en nokkru öðru í úrvalsdeildinni.

Breska blaðið Sun segir í dag að þessar fullyrðingar stjórans séu ekki alveg réttar. Rétt sé að Arsenal brjóti minnst af sér, en bendir á að Manchester United og Everton megi þola fleiri brot á sig en Arsenal.

"Vandamálið í þessari deild síðustu þrjú ár er að við höfum alltaf verið liðið sem brýtur oftast af sér en aftur á móti verið liðið sem oftast er brotið á. Þetta er ekki grunur minn - staðreyndirnar tala sínu máli. Við fáum gult spjald við fjórða hvert brot meðan önnur lið fá jafnvel ekki gult fyrr við níunda hvert brot," sagði Wenger og sagði suma af leikmönnum sínum ítrekað fá það óþvegið.

"Við misstum Diabi vegna grófs brots fyrir tveimur árum og þið ættuð að sjá lappirnar á Alex Hleb eftir leiki. Þetta kemur okkur hinsvegar ekki á óvart. Við reynum að spila fallegan fótbolta en það er á ábyrgð dómara að vernda leikmenn. Okkur hefur verið refsað meira en nokkru öðru liði," sagði Wenger.

Hann brást hinn versti við þegar hann var spurður hvort hann gæfi leikmönnum stundum fyrirmæli um að vera grófir.

"Örugglega. Það er líka örugglega mér að kenna að skuli vera atvinnuleysi í landinu," sagði Wenger reiður. "Ég hef aldrei beðið mann um svona lagað og ef þið getið fundið mann sem heldur því fram, væri ég til í að fá að tala við hann. Ég tek ábyrgð á því sem ég sagði um Martin Taylor á dögunum, en ég tók það til baka og það er fáránlegt að kenna mér um það ef hann hefur fengið morhótanir," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×