Íslenski boltinn

Stefán: Þetta gengur ekki

Elvar Geir Magnússon skrifar
Stefán Þórðarson, leikmaður ÍA.
Stefán Þórðarson, leikmaður ÍA.

KR-ingar unnu sinn þriðja deildarleik í röð þegar þeir unnu 2-0 sigur á ÍA í dramatískum leik í kvöld. Skagamenn fengu að líta þrjú rauð spjöld.

„Þetta var vægast sagt erfitt þar sem við lentum snemma manni færri. Við reynum að spila fótbolta og mér vitanlega vorum við ekki grófir í dag en fengum samt þrjú rauð spjöld," sagði Stefán Þórðarson, leikmaður ÍA, eftir leikinn í viðtali við Stöð 2 Sport.

ÍA er því enn í fallsæti. „Við verðum bara að gjöra svo vel og fara heim og fara yfir hlutina. Við verðum að mæta í næsta leik og gera betur en í dag því þetta gengur einfaldlega ekki," sagði Stefán.

Fyrsta mark KR var umdeilt en aðstoðardómarinn taldi að boltinn hefði farið yfir línuna. Stefán Þórðarson sá ekki atvikið. „Dómarinn ræður samkvæmt reglum KSÍ," sagði Stefán.

Viktor Bjarki Arnarsson átti góðan leik fyrir KR í kvöld. „Skagamenn berjast alltaf til síðasta dropa og þetta var erfiður leikur. Við lögðum á okkur það sem þurfti og uppskárum eftir því," sagði Viktor.

Um Skagaliðið hafi Viktor þetta að segja: „Þeir verða að fara að líta í sinn barm. Þeir eru að öskra orð á Garðar Örn sem þeir ættu frekar að sleppa. Þeir vita vel að Garðar er spjaldaglaður. Þeir þurfa að fara að hugsa sinn gang, það þýðir ekkert að væla í dómurunum endalaust," sagði Viktor Bjarki á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×