Erlent

Skókastari á leið í fangelsi

Óli Tynes skrifar

Í arabaheiminum gæta menn þess að krossleggja ekki fæturna þannig að skósólarnir snúi að sessunautinum. Það þykir stórkostleg móðgun. Hundar eru taldir óhrein dýr.

Þegar íraski fréttamaðurinn Muntazer al-Zaidi fleygði skónum sínum í Bush forseta og kallaði hann hund var hann því að tvinna saman mestu svívirðingar sem hann mögulega gat fundið.

Muntazer liggur nú nokkuð lemstraður á sjúkrahúsi eftir meðferð öryggisvarða sem köstuðu sér á hann eftir að skórnir flugu.

Hann er hinsvegar orðin hetja um allan hinn arabiska heim. Þúsundir araba þustu út á götur til þess að hylla hann og krefjast þess að honum verði sleppt úr haldi.,

Saudi-Arabiskur auðjöfur hefur boðist til að borga tíu milljónir dollara fyrir hvorn skóinn sem er.

Muntazer mun þó tæpast njóta þeirra peninga í bráð. Hann á yfir höfði sér tveggja til sjö ára fangelsi fyrir að móðga erlendan þjóðhöfðingja og sinn eigin þjóðhöfðingja, því Bush stóð við hliðina á Nuri al Maliki forsætisráðherra Íraks þegar Muntazer ákvað að fara á sokkaleistana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×