Íslenski boltinn

Kristján um Tryggva: Svona hagar maður sér ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson fagnar í leik FH og KR fyrr í sumar.
Tryggvi Guðmundsson fagnar í leik FH og KR fyrr í sumar. Mynd/Daníel

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, segir að hegðun Tryggva Guðmundssonar í leik FH og Keflavíkur í gær sé ekki leikmanni í Landsbankadeildinni sæmandi.

Tryggvi fagnaði sigurmarki sinna manna gegn Keflavík í gær fyrir framan leikmenn Keflavíkur. Hann fékk að líta áminningu frá dómara leiksins fyrir óíþróttamannslega framkomu og að ögra andstæðingnum.

„Þarna er liðið búið að skora mark og þú átt að fagna því með þínum félögum. Ekki að gera grín að mótherjanum sem fær þetta mark á sig í þetta mikilvægum leik."

„Þú hegðar þér ekki svona ef þú ert í lagi. Svona gerir maður ekki. Það er einfalt."

Hólmar Örn Rúnarsson, leikmaður Keflavíkur, tók í svipaðan streng. „Þetta var frekar ömurlegt. Það er óskrifuð regla að haga sér ekki svona þegar maður skorar mark."

Þetta var fjórða áminning Tryggva í sumar sem þýðir að hann missir af leik Fylkis og FH í lokaumferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×