Enski boltinn

Mourinho fékk risatilboð í fyrra

Mourinho segist ekki öfunda Avram Grant
Mourinho segist ekki öfunda Avram Grant NordcPhotos/GettyImages

Jose Mourinho, fyrrum stjóri Chelsea, segist sjá eftir því að hafa ekki gengið að góðu tilboði frá evrópsku toppliði sem hann fékk í lok síðustu leiktíðar. Mourinho hætti hjá Chelsea í september í fyrra og hefur verið atvinnulaus síðan.

Reiknað er með því að Mourinho taki við liði á Spáni eða Ítalíu í sumar.

"Ég gerði mistök með því að fara ekki frá Chelsea í lok síðustu leiktíðar," sagði Mourinho í samtali við Daily Telegraph.

"Ég fékk tilboð frá einu af stærsta knattspyrnufélagi Evrópu en ég vildi halda áfram í London af því ég hafði lofað stuðningsmönnum Chelsea að ég færi ekki af mínu eigin frumkvæði. Fjórum mánuðum síðar var ég svo rekinn og ég skil núna að ég hefði ekki átt að neita þessu tækifæri," sagði Mourinho.

Hann segist einni hafa fengið gott tilboð frá enska knattspyrnusambandinu um að taka við landsliðinu.

"Ég fékk freistandi tilboð en afþakkaði það. Ég vil ekki vinna fyrir landslið af því ég vil æfa á hverjum degi. Ég er ekki sextugur, ég er bara 45 ára og ef maður tekur að sér landslið gæti maður verið að missa af einhverju sem er meira spennandi," sagði Mourinho.

Hann segist ekki öfunda Avram Grant eftir að Ísraelsmaðurinn kom Chelsea í úrslit Meistaradeildarinnar - nokkuð sem Mourinho tókst ekki í tíð sinni í London.

"Ég leyfi slíkum tilfinningum ekki að komast að hjá mér. Aðeins aulabárðar velta sér upp úr slíku. Ég hef unnið Meistaradeildina sjálfur og vann alla aðra bikara með Chelsea," sagði Mourinho, sem reyndar hefur lýst því yfir áður að Chelsea eigi að hans mati skilið að vinna Meistaradeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×