Enski boltinn

Capello er hrifinn af Walcott

NordcPhotos/GettyImages

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, var mjög hrifinn af framlagi Theo Walcott í síðari leik Arsenal og Liverpool í Meistaradeildinni á dögunum. Hinn ungi Walcott lagði þar upp síðara mark Arsenal með eftirminnilegum hætti.

"Ég var mjög hrifinn af framlagi Walcott í leiknum og knattrakið hans í undanfara síðara marksins var einstakt. Að fara framhjá svona mörgum mönnum af þessum hraða og tækni er eitt og sér flott, en að hafa útsjónarsemi og yfirvegun til að skila svo góðri sendingu sýnir bara hæfileika hans og þroska," sagði Capello.

Líklegt þykir að Walcott muni fá sæti í hópi Capello fyrir leik Englendinga og Bandaríkjamanna á Wembley þann 28. maí, en hann var á bekknum og kom ekki við sögu í leik Englendinga og Frakka í París á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×