Fótbolti

Glæsimark Eiðs tryggði stig í Noregi

Íslenska landsliðið í knattspyrnu byrjar undankeppni HM vel og í dag gerði liðið 2-2 jafntefli við Norðmenn ytra í hörkuleik.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Steffen Iversen kom norska liðinu yfir á 36. mínútu með marki úr frekar vafasamri vítaspyrnu.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Heiðar Helguson metin með glæsilegum skalla eftir aukaspyrnu frá Emil Hallfreðssyni frá hægri. Staðan var jöfn 1-1 í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti í síðari hálfleik og eftir aðeins fimm mínútur var hinn skæði Iversen búinn að skora aftur. Hann skoraði með góðum skalla framhjá Kjartani Sturlusyni sem var illa staðsettur í markinu.

Norska liðið náði tökum á leiknum í kjölfarið en það var hinsvegar íslenska liðið sem átti síðasta orðið í markaskorun. Eiður Smári Guðjohnsen jafnaði leikinn með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 69. mínútu.

Veigar Páll Gunnarsson kom inn sem varamaður á 85. mínútu leiksins og hann var ekki langt frá því að skora sigurmark íslenska liðsins skömmu síðar þegar hann átti þrumuskot í stöngina á norska markinu af löngu færi.

Niðurstaðan var því 2-2 jafntefli og eru það fín úrslit fyrir íslenska liðið.

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari sagði fyrir leikinn að stig yrðu ásættanleg úrslit í Noregi og það kom á daginn.

Íslenska liðið hefur þar með hlotið eitt stig í riðlinum, einu meira en Skotar sem fengu 1-0 skell í Makedóníu í dag, og mæta því væntanlega dýrvitlausir til leiks á Laugardalsvöll á miðvikudaginn.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×