Fótbolti

David Winnie: Skotar mega ekki vanmeta Íslendinga

David Winnie þekkir ágætlega til íslenska liðsins
David Winnie þekkir ágætlega til íslenska liðsins

David Winnie, fyrrum leikmaður og þjálfari KR, reiknar með því að Skotar muni fara með sigur af hólmi þegar þeir mæta Íslendingum í undankeppni HM á Laugardalsvelli á miðvikudaginn.

Winnie segir að íslenska vörnin sé sterk, en eigi það til að gera mistök undir pressu. Hann segir Eið Smára Guðjohnsen helstu ógn liðsins í framlínunni, en bendir á að ekki megi vanmeta íslenska liðið þó Skotarnir séu vissulega sigurstranglegri.

"Þetta verður erfiður leikur fyrir Skota því íslenska liðið er skipað sterkum leikmönnum sem spila fast. Íslenska liðið er ekki jafn sterkt og það hefur verið undanfarin ár, en það getur samt staðið í öllum liðum sem það spilar við," sagði Winnie í samtali við Evening Express.

"Skoska liðið verður að setja pressu á vörn íslenska liðsins, því hún á það til að leka inn mörkum undir pressu. Skotland getur sannarlega náð í þrjú stig í þessum leik, en þeir verða að gæta sín, því íslenska liðið er hættulegt fram á við. Eiður Smári er vitanlega þeirra hættulegasti maður, en svo eru þeir með Heiðar Helguson hjá Bolton sem er öflugur framherji og Emil Hallfreðsson á vinstri vængnum er fljótur og á góðar fyrirgjafir," sagði Winnie.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×