Fótbolti

Ólafur: Það býr margt í þessu liði

Mynd/Martin Sylvest

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari var að vonum kátur eftir að íslenska landsliðið náði stigi gegn Norðmönnum í fyrsta leik liðanna í undankeppni HM í dag.

"Ég er fyrst og fremst ánægður með leikinn. Menn voru að leggja sig fram og berjast vel. Mér fannst síðasta korterið í fyrri hálfleik og fyrstu mínúturnar í þeim síðari ekki alveg nógu góðar þar sem við duttum dálítið langt til baka. En við náðum að koma til baka eftir að lenda undir tvisvar og það sýnir að það býr margt í þessu liði," sagði Ólafur í samtali við Arnar Björnsson á Stöð 2 Sport.

Ólafur hrósaði Heiðari Helgusyni fyrir hans framlag í leiknum, en Heiðar skoraði mark og fiskaði aukaspyrnuna sem færði íslenska liðinu jöfnunarmarkið sem Eiður Smári skoraði.

"Eins og ég hef sagt áður þá leggur Heiðar sig 100% fram í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann er góð fyrirmynd fyrir þessa ungu drengi og maður þarf ekki að segja honum að berjast - hann gerir það alltaf," sagði Ólafur.

Hann var þvínæst spurður út í viðureignina við Skota á miðvikudaginn, en vildi lítið segja um þann leik að svo stöddu.

"Ég er alveg bjartsýnn á Skotaleikinn og tel okkur eiga möguleika í honum. Annars verð ég fyrst og fremst sáttur af við komumst heilir heim á sunnudaginn," sagði Ólafur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×