Fótbolti

Íslenskir stuðningsmenn fjölmenna á völlinn

Ómar Þorgeirsson í Osló skrifar

Nú styttist í að leikur Íslands og Noregs hefjist í undankeppni HM 2010 á Ullevaal leikvanginum í Ósló. Búist er við því að Íslendingar búsettir í Ósló og á Norðurlöndunum muni fjölmenna á völlinn.

Hópur harðkjarna stuðningsmanna frá Íslandi, sem kallar sig Áfram Ísland er einnig mættur til Óslóar.

"Stuðningsmannahópurinn Áfram Ísland er búinn að vera starfandi í tíu ár núna og er stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins, hvort sem er í fótbolta, handbolta eða hvaða annarri keppnisgrein. Markmiðið hjá okkur er að búa til smá stemningu fyrir landsleikina og skipuleggja alls kyns upphitanir og skrúðgöngur fyrir landsleikina," segir Ólafur Jóhannesson sem er í forsvari fyrir stuðningsmannahópinn og er eins og glöggir lesendur taka eftir, alnafni landsliðsþjálfara Íslands.

"Ég fór aðeins og spjallaði við nafna minn landsliðsþjálfarann í gær og hann lýsti yfir ánægju sinni með að við værum mættir á svæðið. Ég tel reyndar Íslenska landliðið spila alltaf aðeins betur þegar við erum á vellinum," segir Ólafur ánægður.

Áfram Ísland stóð fyrir upphitun fyrir leikinn í kvöld á kaffihúsinu Þrír bræður í miðborg Óslóar en þar var hægt að kaupa ýmsan varning tengdan landsliðinu og menn hittust og spjölluðu saman.

Talið er að allt að 1000-1500 íslenskir áhorfendur verði á Ullevaal leikvanginum í kvöld en leikvangurinn tekur rétt rúmlega 25000 manns í sæti. -óþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×