Fótbolti

Kjartan: Sáttur við frammistöðuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Sturluson, leikmaður Vals og íslenska landsliðsins.
Kjartan Sturluson, leikmaður Vals og íslenska landsliðsins. Mynd/Vilhelm

Kjartan Sturluson var heilt yfir sáttur við frammistöðu sína með íslenska liðinu gegn Norðmönnum á laugardaginn.

Síðara mark Norðmanna kom eftir miskilning á milli Kjartans og varnarmanns en leiknum lauk með 2-2 jafntefli. Fyrra mark Norðmanna var skorað úr vítaspyrnu.

„Ég var bara nokkuð sáttur. Það er alltaf hægt að setja út á eitt og eitt atvik og sjálfsagt hefði ég getað gert betur í markinu. En ef ég lít heilt yffir leikinn er ég mjög sáttur," sagði Kjartan í samtali við Vísi.

Stefán Logi Magnússon er hinn markvörðurinn í íslenska landsliðshópnum og hann var í byrjunarliðinu í vináttuleiknum gegn Aserbaídsjan í síðasta mánuði. Það kom þó Kjartani ekkert sérstaklega á óvart að hann var valinn til að standa í markinu í Noregi.

„Ekkert frekar. Þetta er ákvörðun sem þjálfarinn tekur og hvað hann gerir svo á morgun veit ég ekki. Það er enginn öruggur með sína stöðu í liðinu. En ég verð ekkert smeykur við að spila verði ég valinn. Ég var valinn í þennan hóp og spila sé óskað eftir því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×