Fótbolti

Norðmenn blása til sóknar á laugardag

Carew og Iversen verða líklega í framlínu Norðmanna á laugardag
Carew og Iversen verða líklega í framlínu Norðmanna á laugardag AFP

Åge Hareide, landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu, mun stilla upp sókndjörfu liði gegn Íslendingum í undankeppni HM á laugardaginn ef marka má norska fjölmiðla.

Dagblaðið Verdens Gang í Noregi hefur þannig verið að fylgjast náið með æfingum landsliðsins og hefur stillt um líklegu byrjunarliði fyrir leikinn sem fram fer ytra klukkan 17:00 á laugardaginn.

Norskir miðlar eru flestir sammála um að Hareide muni spila leikaðferðina 4-1-2-1-2 og slær VG því föstu að þeir John Carew hjá Aston Villa og Thorstein Helstad hjá Le Mans í Frakklandi muni verða í framlínunni og að Steffen Iversen hjá Rosenborg muni stillt upp sem sóknartengilið fyrir aftan þá.

Iversen er vanur að spila sem framherji hjá liði sínu Rosenborg, en hann fagnar nýju hlutverki sínu í samtali við VG. Athygli vekur að á miðað við þessa uppstillingu er ekkert pláss fyrir vængmanninn Morten Gamst Pedersen hjá Blackburn.

John Carew sagði í samtali við VG að ekki yrði um neitt vanmat að ræða hjá norska liðinu þó því Íslenska hafi gengið afleitlega á útivelli í undankeppni EM.

"Það eru fá lið það slök að menn geti ætlað sér að eiga náðugan dag á móti þeim. Það á ekki síst við lið eins og Ísland sem er skipað líkamlega sterkum leikmönnum," sagði Carew.

Svona stillir VG upp líklegu byrjunarliði Norðmanna gegn Íslandi á Ullevaal á laugardaginn:

Markvörður: Rune Almenning Jarstein

Varnarmenn: Tom Høgli, Brede Hangeland, Tore Reginiussen og John Arne Riise

Varnartengiliður: Martin Andresen

Miðjumenn: Fredrik Strømstad og Fredrik Winsnes

Sóknartengiliður: Steffen Iversen

Framherjar: Thorstein Helstad og John Carew








Fleiri fréttir

Sjá meira


×