Enski boltinn

Eriksson: Sýndum að við erum með gott lið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson og Sven-Göran Eriksson lögðu blómakransa á miðjan völlinn fyrir leik í dag.
Alex Ferguson og Sven-Göran Eriksson lögðu blómakransa á miðjan völlinn fyrir leik í dag. Nordic Photos / Getty Images
Sven-Göran Eriksson var fyrst og fremst þakklæti í garð stuðningsmanna sinna í huga eftir sigur sinna manna í Manchester City á grönnum sínum í United í dag.

„Fyrst og fremst vil ég þakka stuðningsmönnum City fyrir," sagði hann. „Þeir voru frábærir fyrir leik, á meðan mínútuþögninni stóð, og líka á meðan leiknum stóð eins og þeir eru reyndar alltaf."

„Svo vil ég þakka leikmönnunum kærlega fyrir. Þeir unnu frábært verk hér í dag."

Eriksson sagði að hann og sínir menn hafi velt því fyrir sér af hverju þeir hafi ekki verið að standa sig jafn vel undanfarnar vikur og þeir gerðu í upphafi leiktíðar. Hann sagði að það hefði því verið ákaflega mikilvægt að standa sig vel í dag.

„Ég sagði mönnum í síðustu viku að fyrst og fremst þyrftum við að standa okkur vel í dag. Úrslit leiksins væru í sjálfu sér aukaatriði þó svo að þau eru vitanlega alltaf mikilvæg. Og við svöruðum vel fyrir okkur í dag og sýndum öllum að við erum með gott lið sem getur spilað eins vel og það gerði í dag."

Spurður um hvort að það hafi verið erfitt að halda einbeitingunn í dag þar sem mikið gekk á fyrir leikinn í tengslum við það að hálf öld er liðin frá flugslysinu í München.

„Ég veit það ekki. Það er erfitt að meta það fyllilega. En ég held þó að um leið og dómarinn hafi flautað leikinn í gang hafi allir leikmenn einbeitt sér fyllilega að leiknum."

Hann lýsti einnig yfir ánægju sinni með Benjani sem lék sinn fyrsta leik með City í dag og skoraði sitt fyrsta mark.

„Hann var frábær. Benjani er sterkur leikmaður og fljótur og var mjög duglegur þegar United var með boltann. Ég er mjög ánægður með að hafa fengið hann."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×