Enski boltinn

Þurrt og markalaust á Brúnni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Lampard og Steven Gerrard eigast við í leiknum í dag.
Frank Lampard og Steven Gerrard eigast við í leiknum í dag.
Leikur Chelsea og Liverpool stóð alls ekki undir væntingum en liðin gerðu markalaust jafntefli í miklum baráttuleik.

Afar fátt var um fína drætti í leiknum og helst var að Liverpool komst nærri því að skora í fyrri hálfleik.

Úrslitin þýða að Chelsea nær að saxa á forskot Manchester United í þrjú stig. Arsenal er nú tveimur stigum á undan United og fimm á undan Chelsea og á þar að auki leik til góða.

Liverpool er nú með 44 stig, rétt eins og Aston Villa og Manchester City. Liverpool á sem fyrr leik til góða.

Frank Lampard var í byrjunarliði Chelsea á nýjan leik eftir nokkra fjarveru vegna meiðsla. Hann var á miðjunni ásamt þeim Claude Makelele og Michael Ballack.

Hjá Liverpool voru þeir Peter Crouch og Dirk Kuyt í fremstu víglínu í fjarveru Fernando Torres sem er meiddur. Þá var Ryan Babel á vinstri kantinum hjá Liverpool.

Liverpool var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Peter Crouch kom sér nokkrum sinnum í ágæt færi án þess þó að nýta þau almennilega. Aðallega fór þó baráttan fram á miðjunni en Chelsea fékk þó sín færi líka.

Joe Cole var til að mynda á góðri leið með að koma sér í gott færi í vítateig Liverpool er Javier Mascherano tæklaði hann en vítaspyrnan þó ekki dæmd.

Síðari hálfleikur fór afskaplega rólega af stað og fá færi litu dagsins ljós. Michael Ballack átti ágætt skot að marki þegar skammt var til leiksloka og Liverpool átti nokkrar efnilegar sóknir undir blálokin. En allt kom fyrir ekki og markalaust jafntefli niðurstaðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×