Enski boltinn

Avram Grant sagt upp hjá Chelsea

NordcPhotos/GettyImages

Avram Grant hefur verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri Chelsea eftir aðeins átta mánuði í starfi. Sky fréttastofan greindi frá þessu nú rétt í þessu.

Þetta varð niðurstaða tveggja daga fundarhalda milli Grant og Peter Kenyon framkvæmdastjóra félagsins.

Spurningar um framtíð Grant höfðu verið á forsíðum ensku blaðanna í nokkrar vikur, en Grant skilaði Chelsea í annað sætið í ensku úrvalsdeildinni og í Meistaradeild Evrópu.

Í yfirlýsingu á heimasíðu Chelsea segir að leitin að eftirmanni Grant sé þegar hafin, en engar frekari yfirlýsingar hafa enn borist frá félaginu.

"Allir hjá Chelsa vilja koma á framfæri þökkum til Grant fyrir gott starf síðan hann tók við í september. Nú verður lagt kapp á að finna nýjan knattspyrnustjóra og engar frekari yfirlýsingar verða gefnar út fyrr en það liggur fyrir," sagði í yfirlýsingunni.

Menn eins og Roberto Mancini hjá Inter og Frank Rijkaard, fyrrum þjálfari Barcelona, hafa verið orðaðir við stjórastöðuna hjá Chelsea. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×