Íslenski boltinn

Keflvíkingar á toppnum

Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta markið á Vodafone-vellinum
Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta markið á Vodafone-vellinum

Keflvíkingar sitja einir á toppi Landsbankadeildar karla í knattspyrnu þegar fjórum af fimm leikjum kvöldsins er lokið. Keflvíkingar lögðu Skagamenn 3-1 á heimavelli sínum á meðan nýliðar Fjölnis töpuðu sínum fyrsta leik.

Keflvíkingar náðu forystunni gegn ÍA á 16. mínútu þegar Hallgrímur Jónasson skoraði eftir sendingu frá Simun Samuelsen og þannig var staðan í hálfleik.

Keflvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum en gestirnir hresstust eftir hálfleiksræðu Guðjóns Þórðarsonar. Vjekoslav Svadumovic jafnaði fyrir ÍA eftir aðeins fimm mínútna leik í síðari hálfleik.

Keflvíkingar náðu hinsvegar undirtökunum á ný og á 69. mínútu kom Guðmundur Steinarsson heimamönnum yfir á ný úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Það var svo varamaðurinn Þórarinn Kristjánsson sem innsiglaði sigurinn með marki í blálokin, en skömmu áður hafði Stefáni Þórðarsyni verið vikið af leikvelli í liði ÍA eftir að hann fékk sitt annað gula spjald.

Fyrsta tap nýliðanna

Fjölnismenn töpuðu sínum fyrsta leik á leiktíðinni þegar þeir lágu 2-1 gegn Val í opnunarleik liðsins á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda.

Helgi Sigurðsson kom Valsmönnum á bragðið á 41. mínútu og varð þar með fyrsti maðurinn til að skora á nýja vellinum. Ómar Hákonarson þaggaði niður í þorra þeirra ríflega 1700 áhorfenda sem mættu á völlinn þegar hann jafnaði fyrir Fjölni á 60. mínútu.

Ekki vænkaðist hagur þeirra rauðklæddu á 77. mínútu þegar Baldur Bett fékk að líta rautt spjald, en það var hinsvegar Pálmi Rafn Pálmason sem innsiglaði sigur 10 Valsmanna þegar hann skoraði sex mínútum fyrir leikslok.

Fylkismenn komnir í gang

Fylkir vann annan leik sinn í röð eftir erfiða byrjun í deildinni þegar liðið lagði botnlið HK 2-1 á heimavelli sínum. Jóhann Þórhallsson skoraði bæði mörk Fylkis í síðari hálfleiknum en Iddi Alkhag náði að jafna fyrir Kópavogsliðið í millitíðinni.

Fram í góðum málum

Loks unnu Framarar góðan 1-0 sigur á Þrótti á Laugardalsvelli fyrir framan rúmlega 1100 áhorfendur. Hjálmar Þórarinsson skoraði eina mark leiksins strax á 12. mínútu leiksins og það dugði Safamýrarpiltum til sigurs. Þróttarar fóru illa með mörg góð færi í leiknum og voru mun betri í síðari hálfleik, en allt kom fyrir ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×