Erlent

Ísraelar opna landamærin að Gaza

Ísraelar opnuðu í morgun landamærin að Gaza þannig að hægt væri að flytja hjálpargögn þangað. Landamærin hafa verið lokuð um nokkurt skeið.

Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, ákvað að opna fyrir flutning hjálpargagna til íbúa Gaza eftir að hann hafði ráðfært sig við öryggissérfræðinga. Alþjóðasamfélagið hafi þrýst á að þetta yrði gert. Áttatíu flutningabílar fluttu lyf, matvæli og ýmsar aðrar vörur yfir landamærin í morgun.

Opnað var fyrir flutningana þrátt fyrir að ísraelsk stjórnvöld hafi gert herskáum Palestínumönnum á Gaza grein fyrir því að gripið yrði til aðgerða ef flugskeytaárásum á ísraelskt landsvæði frá Gaza yrði ekki þegar hætt. Flugskeytum var skotið í morgun en engan sakaði. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði að ekki yrði hikað við að gera loftárásir á Gaza ef ekki yrði lát á flugskeytaárásunum.

Hálfs árs vopnahlé milli Ísraela og Hamas-samtakanna, sem ráða lögum og lofum á Gaza, rann út fyrir viku en það var ekki endurnýjað.

Sérfræðingar í mannúðarmálum hjá Sameinuðu þjóðunum hafa varað við slæmu ástandi á Gaza vegna landamæralokunarinnar og sagt að stefndi í hörmungar í mannúðarmálum.

Fjórir af hverjum fimm íbúum á Gaza treysti á matargjafir mannúðarsamtaka en vöruhús Sameinuðu þjóðanna á svæðinu séu tóm. Ekki berist nægilega mikið miðað við það sem þurfi.

Ísraelar segja óvíst hversu lengi landamærin verði opin. Ísraelar lokuðu landamærunum í nóvember eftir að hafa opnað þau í skamman tíma til að leyfa flutning á mat og eldsneyti til íbúanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×