Erlent

Barack Obama er dáðasti maður Bandaríkjanna

Barack Obama.
Barack Obama.

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, er dáðasti maður landsins ef marka má könnun á vegum dagblaðsins USA Today og Gallup. Könnunin er árlegur viðburður og er ávallt sagt frá niðurstöðum hennar á öðrum degi jóla. Könnunin nær til allra ríkja Bandaríkjanna og er spurt hvaða karlmann og hvaða konu menn dáist mest að. Obama sigraði karlahópinn með miklum yfirburðum, en 32 prósent þeirra sem svöruðu nefndu hann.

Fráfarandi forseti George W. Bush náði öðru sætinu en aðeins fimm prósent sögðust þó dást mest að honum. Hillary Clinton, verðandi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama er sú kona sem Bandaríkjamenn dást mest að en hún hefur verið efst í könnuninni í 13 skipti síðustu 16 árin.

Clinton hlaut 20 prósent atkvæða og varaforsetaefnið Sarah Palin hreppti annað sætið með 11 prósent atkvæða. Sjónvarpsstjarnan Oprah Winfrey er í þriðja sæti með átta prósent atkvæða.

Forsetakosningarnar eru fólki greinilega enn hugleiknar, því annar forsetaframbjóðandi, John McCain varð þriðji í hópi karla. Aðeins einu sinni áður hefur það gerst að tilvonandi forseti sigri í könnuninni frá því Gallup hóf að kanna þessi viðhorf árið 1958. Það gerðist 1952 þegar Dwight Eisenhower bar sigur úr býtum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×