Innlent

Fá ekki launahækkun vegna vinnu við hættuleg efni

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu fjögurra starfsmanna á veirudeild Landspítlans um eins launaflokks hækkun samkvæmt kjarasamningi vegna vinnu þeirra með hreinræktuð smitefni og eiturefni. Þar á meðal eru krabbameinsvaldandi og stökkbreytandi efni.

Það var Félag íslenskra náttúrufræðinga sem höfðaði málið og vísaði til stofnanasamnings sem gerður var árið 2001. Taldi félagið hann brotinn.

Benti dómurinn á að það hefði verið sameiginlegur skilningur samningsaðilanna að tekið hefði verið tillit til áhættu vegna vinnu með eiturefni við samningsgerðina en það hafi verið gert með því að veita stig fyrir sérstaka áhættu. Báðir samningsaðilar hefðu undirritað þennan sameiginlega skilning.

Sagði dómurinn ósannað að röðun starfsmannanna fjögurra í launaflokka hefði falið í sér brot á stofnanasamningnum. Því var ekki fallist á að starfsmennirnir ættu rétt á eins launaflokks hækkun.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×