Enski boltinn

Bestu erlendu sóknarmenn enska boltans

Elvar Geir Magnússon skrifar
Thierry Henry er bestur.
Thierry Henry er bestur.

Það hafa margir erlendir sóknarmenn náð að slá í gegn í enska boltanum. Gott dæmi er Fernando Torres hjá Liverpool. The Sun hefur tekið saman lista yfir tíu bestu erlendu sóknarmennina sem leikið hafa í ensku úrvalsdeildinni.

Ef þið veltið fyrir ykkur af hverju Cristiano Ronaldo er ekki á listanum er svarið einfaldlega það að hann er ekki skilgreindur sem sóknarmaður af blaðamönnum The Sun.

Paolo Di Canio, Dwight Yorke og Fabrizio Ravanelli banka allir á þennan lista en komast þó ekki á hann.

1. Thierry Henry

Henry gekk ekki vel á sínu fyrsta tímabili hjá Arsenal en varð síðan goðsögn hjá félaginu á átta árum. Markahæsti erlendi leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar skrifaði nafn sitt skýrum stöfum í sögubækurnar.

2. Eric Cantona

Franska ljóðskáldið var umdeildt en enginn efast um hæfileikana sem það bjó yfir. Ein bestu kaup Sir Alex Ferguson. Þrátt fyrir að hafa lagt skóna á hilluna frekar snemma er Cantona lifandi goðsögn hjá stuðningsmönnum Manchester United.

3. Ruud van Nistelrooy

Alvarleg meiðsli á hné settu sölu hans til Manchester United í hættu. En hann sigraðist á meiðslunum og var hetja á Old Trafford. Hann skoraði að meðaltali tvö mörk í hverjum þremur leikjum hjá Manchester United.

4. Dennis Bergkamp

Arsenal hefur átt marga góða erlenda sóknarmenn. Bergkamp er einn af þeim bestu sem sést hafa. Hann kom til Arsenal fyrir þrettán árum og varð fljótt uppáhald stuðningsmanna enda bjó hann yfir ótrúlegum hæfileikum.

5. Gianfranco Zola

Á sjö árum hjá Chelsea náði hann að skapa sér nafn sem besti leikmaður félagsins frá upphafi. Algjör töframaður sem skoraði reglulega.

6. Fernando Torres

Mun líklega klífa upp þennan lista enn frekar. Hefur slegið í gegn hjá Liverpool síðan hann var keyptur frá Atletico Madrid í fyrra.

7. Jurgen Klinsmann

Var keyptur til Tottenham fyrir 14 árum og raðaði inn mörkum fyrir félagið. Myndaði magnað sóknarpar með Teddy Sheringham. Þremur árum síðar mætti hann aftur í búning Tottenham og stóð fyrir sínu og rúmlega það.

8. Ole Gunnar Solskjær

Norski ofurvaramaðurinn með barns-andlitið fór á kostum með Manchester United. Meiðsli neyddu hann til að leggja skóna á hilluna á síðasta tímabili.

9. Didier Drogba

Ekki sá vinsælasti á listanum en hefur skapað mikla ógn í fremstu víglínu Chelsea. Algjör lykilmaður hjá liðinu.

10. Jimmy-Floyd Hasseilbank

Fór á kostum með Leeds og Chelsea.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×