Innlent

Héldu upplýsinga- og stuðningsfundi fyrir erlenda starfsmenn LSH

Erlendir starfsmenn á Landspítalanum eru uggandi yfir stöðu sinni, launum og réttindamálum og því gripu forsvarsmenn spítalans til þess að halda upplýsinga- og stuðningsfundi fyrir þá í síðustu viku.

Fram kemur í tilkynningu Landspítalans að um 160 manns hafi sótt fundina vegna þrenginga í fjármálum á Íslandi. Haldnir voru fundir bæði á ensku og pólsku en alls eru á fjórða hundrað erlendir starfsmenn á Landspítalanum. Rúmur þriðjungur er frá Póllandi en einnig margir frá Filippseyjum og Taílandi.

„Starfsmennirnir hafa verið kvíðafullir og fundist vanta upplýsingar frá samfélaginu. Þeir lýstu því mikilli ánægju með framtak spítalans að standa fyrir fundunum og töldu þá gagnlega. Margt hefði skýrst og mörgu verið svarað af spurningum sem hefðu vaknað hjá þeim í þeim óróa sem einkennt hefur íslenskt samfélag undanfarið," segir í tilkynningunni.

„Tilgangur með fundunum var að veita stuðning, ráðgjöf og upplýsingar og svara spurningum um ástandið í samfélaginu. Á fundinum voru fulltrúar frá skrifstofu mannauðsmála, stuðnings- og ráðgjafarteymi Landspítala og frá Alþjóðahúsi. Starfsmennirnir eru uggandi yfir stöðu sinni og störfum, launum og réttindamálum. Þeir hafa áhyggjur af lánum, sparnaði og húsnæðismálum og segja að margar misvísandi sögur hafi orðið til sem skapist mest af því að fólk skilji íslensku misvel eða jafnvel alls ekki. Peninga- og bankamál bar mikið á góma.

Reynt var eftir bestu getu að veita svör við spurningum sem fram komu, gefa almenn ráð til að bæta líðan erlendu starfsmannanna og hjálpa þeim að takast á við áföll," segir einnig í tilkynningu Landspítalans,.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×