Íslenski boltinn

Allt bendir til að Rúnar stýri HK gegn Breiðabliki

Elvar Geir Magnússon skrifar
Rúnar er hér með Gunnari Guðmundssyni í varamannaskýli HK-inga.
Rúnar er hér með Gunnari Guðmundssyni í varamannaskýli HK-inga.

Rúnar Páll Sigmundsson mun að öllum líkindum stýra HK í næsta leik liðsins sem er gegn Breiðabliki í Landsbankadeildinni á mánudag. Leit HK að næsta þjálfara liðsins stendur enn yfir.

„Það er bara sama staða í gangi og í gær. Það eru þreyfingar og verið að taka púlsinn á mönnum," sagði Óli Þór Júlíusson, geðþekkur fjölmiðlafulltrúi HK, í samtali við Vísi nú í dag.

Hann segir ekkert benda til þess að þjálfaramálin skýrist alveg strax.

Það eru því allar líkur á því að Rúnar Páll muni stýra HK-ingum í grannaslagnum gegn Breiðabliki. Rúnar var aðstoðarmaður Gunnars Guðmundssonar en hefur stýrt æfingum liðsins síðan Gunnar var látinn taka pokann sinn.

Óli Þór gat ekki svarað því hvort til greina kæmi að ráða Rúnar í þjálfarastarfið til frambúðar eða láta hann stýra liðinu út tímabilið. HK er með fimm stig í neðsta sæti Landsbankadeildarinnar en sem stendur eru fjögur stig upp úr fallsætinu.

HK-ingum hefur gengið ansi illa í leit sinni að nýjum þjálfara en hér að neðan má sjá nöfn þeirra sem vitað er að hafi staðið til boða að taka við liðinu en neituðu.

Eyjólfur Sverrisson

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir

Ólafur Þórðarson

Lúkas Kostic

Pétur Pétursson










Fleiri fréttir

Sjá meira


×