Erlent

Franska forsetafrúin nakin á búðarpokum

Carla Bruni forsetafrú Frakklands er fjúkandi reið þessa daganna. Hún hefur beðið lögmenn sína um að höfða mál gegn fyrirtæki sem framleiðir búðarpoka sökum þess að fyrirtækið hefur prentað nektarmynd af Bruni á nýjustu pokana sína.

Fyrirtækið sem hér um ræðir heitir Pardon og selur poka þessa á eyjunni Reunion í Indlandshafi fyrir 400 kr. stykkið.

Lögmaður Bruni segir að hvorki forsetafrúin né ljósmyndarinn sem tók af henni nektarmyndina hafi gefið Pardon leyfi til að nota hana á poka sína. Ljósmyndarinn sem hér um ræðir er Svisslendingurinn Michael Comte.

Myndin af Bruni var upphaflega tekin sem þáttur í herferð gegn eyðni en frumútgáfa hennar var nýlega seld á uppboði í New York fyrir rúmlega tíu milljónir kr. Rann andvirðið til góðgerðarmála.

Réttarhöld eru hafin í málinu á Reunion. Þar hefur komið fram að Pardon hefur þegar framleitt 10.000 búðarpoka. Skaðabótakröfur Bruni hljóða upp á tæplega 17 milljónir kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×