Innlent

Grýttu bjórflösku í átt að lögreglu

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. Mynd/Vísir

Litlu mátti muna að bjórflaska hafnaði í höfði lögreglumanns í Vestmannaeyjum sem var að hafa afskipti af slagsmálum á veitingastað í Eyjum aðfaranótt 1. maí.

Fram kemur í dagbók lögreglunnar að hún hafi verið kölluð á veitingastaðinn til að skakka leikinn og þegar verið var að fara með annan mannanna inn í lögreglubifreiðina kastaði einhver af þeim sem voru að horfa á bjórflösku sem lenti á lögreglubifreiðinni.

Segir lögregla að litlu hafi mátt muna að hún lenti í höfði annars lögreglumannanna sem þarna voru að störfum. Einnig var glasi hent en það lenti nokkuð frá lögreglumönnunum. Lögreglan lítur þetta atvik mjög alvarlegum augum og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hverjir hentu bjórflöskunni og glasinu beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Önnur líkamsárás átti sér stað á sama veitingastað þessa nótt en þar sló einn maður annan og þurfti sá sem fyrir högginu varð að leita sér aðstoðar á Heilsugæslustöð Vestmannaeyja vegna skurðar í andliti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×