Innlent

30 þúsund mótmæla hryðjuverkalögum

Hátt í 30 þúsund manns hafa nú ritað nafn sitt undir yfirlýsingu á vefsíðunni indefence.is, þar sem framkomu breskra stjórnvalda gegn íslendingum er mótmælt.

Aðstandendur síðunnar segja brýnt að Íslendingar og íslensk stjórnvöld krefjist afturköllunar á þeirri aðgerð breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum til að frysta eignir íslenskra banka í Bretlandi. Til þess að ná því markmiði þurfi landsmenn að kynna málstað sinn fyrir bresku þjóðinni, sem kannski átti sig ekki á því hve óeðlilegt það sé að beita hryðjuverkalögum gegn íslendingum og hve alvarlegar afleiðingar þess hafa verið.

Í yfirlýsingunni er þess farið á leit við bresku þjóðina að hún standi með Íslendingum í þeirri viðleitni að binda enda á diplómatískar erjur milli ríkisstjórna landanna til þess að hægt verði að koma í veg fyrir frekara efnahagslegt tjón í löndunum tveimur og bæta það tjón sem orðið hefur.

Markmiðið er að afhenda breskum yfirvöldum yfirlýsinguna og undirskriftalistann í viðurvist fjölmiðla. Vona aðstandendur verkefnisins að með þessu verði hægt að koma bresku þjóðinni í skilning um hversu mikið óheillaverk það var að beita hryðjuverkalögum á óréttmætan hátt gegn lítilli þjóð sem stóð veik fyrir vegna djúpstæðra efnahagslegra áfalla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×