Íslenski boltinn

Willum: Við tæklum þetta

Willum er brattur þrátt fyrir meiðsli í herbúðum Vals
Willum er brattur þrátt fyrir meiðsli í herbúðum Vals Mynd/Daníel Rúnarsson

Willum Þór Þórsson þjálfari Vals segir það vissulega blóðugt hve marga leikmenn hann hefur misst í meiðsli í byrjun móts. Valsmenn fara í Árbæinn í kvöld og mæta Fylki í þriðju umferð Landsbankadeildarinnar þar sem heimamenn freista þess að ná í sín fyrstu stig.

Guðmundur Benediktsson varð í dag nýjasta nafnið á meiðslalista Valsmanna, en hann getur ekki spilað vegna ökklameiðsla.

Þeir Baldur Aðalsteinsson, Dennis Bo Mortensen, Daníel Hjaltason og Barry Smith geta ekki leikið með Valsmönnum í kvöld, en Willum þjálfari er þó ekkert á því að gráta.

"Það kemur dálítið illa við okkur að missa þessa lykilmenn svona nýkomnir inn í mótið, en við tæklum það. Við erum með góðan hóp, en við finnum fyrir því að missa þrjá leikmenn út sem hafa verið í sóknarlínunni hjá okkur undanfarið," sagði Willum í samtali við Vísi.

Hann á ekki von á neinum vettlingatökum frá Fylkismönnum í kvöld, en Árbæingar hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni.

"Þeir eru særðir, það er rétta orðið, og þeir eiga eftir að mæta dýrvitlausir til leiks. Þeir þurfa fyrstu stigin sín og mæta grimmir. Við sjálfir eigum líka eftir að finna almennilega sjálfstraustið og ég hugsa að ákefðin og baráttan verði mjög mikil í byrjun leiks í kvöld," sagði Willum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×