Innlent

Óttast afleiðingar fjármálakreppunnar á velferðarkerfið

Gerður A. Árnadóttir, læknir og formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar
Gerður A. Árnadóttir, læknir og formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar

Yfirstandandi efnahagsþrengingar og fall bankanna á síst af öllu að bitna á þeim sem þurfa hvað mest að nýta velferðarkerfið og öryggisnetið, að mati Gerðar A. Árnadóttur læknis og formanns Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Verjum velferðina er yfirskrift útifundar sem haldinn verður á morgun sem BSRB, Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Félag eldri borgara í Reykjavík standa á bak við.

Gerður segir að lengi vel hafi óvissa ríkt og óljóst hafi verið hvaða áhrif fjármálakreppan myndi hafa. Aftur á móti hafi fjármálaráðuneytið nýverið gefið út að draga eigi verulega úr ríkisútgjöldum. ,,Ekki hefur verið skilgreint nákvæmlega hvernig það verður gert og á meðan að staðan er þannig er full ástæða til að hafa áhyggjur og við óttumst verulega um velferðarþjónustuna."

Boðaður niðurskurður og fjárlagagerð Alþingis kalla á útifund eins og þann sem haldinn verður á morgun, að mati Gerðar. Senda verði skýr skilaboð um nauðsyn þess að verja velferðina.

Útifundurinn á morgun fer fram á Ingólfstorgi og hefst klukkan 16:30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×