Innlent

Íslendingar vöruðu Breta við fyrir hálfu ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gordon Brown liggur undir ámælum fyrir að hafa ekki varað innistæðueigendur við stöðu íslensku bankanna.
Gordon Brown liggur undir ámælum fyrir að hafa ekki varað innistæðueigendur við stöðu íslensku bankanna.

Íslensk stjórnvöld vöruðu bresk stjórnvöld við aðstæðum í íslenska bankakerfinu fyrir meira en hálfu ári síðan. Bresk stjórnvöld brugðust ekkert við ábendingum Íslendinga. Þetta var fullyrt á breskri sjónvarpsstöð í kvöld.

Channel 4 fréttastofan segir að í mars hafi íslensk yfirvöld óskað eftir aðstoð frá Bretum. Breski seðlabankinn, Bank of England, hafi neitað og breska ríkisstjórnin hafi ekkert gert til að aðvara almenning.

Channel 4 segir að íslenskir bankar hafi verið tældir af stærri bönkum með ódýru lánsfé og litlu eftirliti í góðærinu. Í mars síðastliðnum, þegar íslenska krónan var í frjálsu falli og traustið á íslenskum bönkum að hrynja hafi Seðlabanki Íslands beðið Bank of England um aðstoð. Eftir að Bank of England hafi fengið mat frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum i apríl hafi bankinn frábeðið sér að flækjast inn í mál íslensku bankanna. Þeir væru einfaldlega of skuldsettir.



Ráðlagði Geir að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í apríl


Channel 4 segist svo hafa heimildir fyrir því að þegar Geir Haarde forsætisráðherra og Gordon Brown hittust þann 25. apríl í vor hafi Gordon Brown ráðlagt Geir að óska eftir aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þann 2. september hafi Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Jón Sigurðsson stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins svo fundað með Alistair Darling og beðið hann um að gera Icesave að bresku félagi þannig að Bretar tækju ábyrgð á innistæðum í bankanum. Þær viðræður hefðu fjarað út.

Þeir sem áttu innistæður í Icesave spyrja sig þess vegna að því hvers vegna Alistair Darling hafi ekki varað innistæðueigendur við, ef hann vissi af því að ekki var allt með felldu. Channel 4 bendir hins vegar á að ríkisstjórnin hafi verið milli steins og sleggju. Ef þeir hefðu varað við stöðu bankanna, þá hefði það getað valdið skelfingu, á meðal almennings, sem hefði stuðlað að hruni bankanna. Hins vegar hefðu þeir sem voru að leggja pening inn á Icesave allan septembermánuð gjarnan viljað vera aðvaraðir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×