Innlent

Setja verklagsreglur um viðbrögð skóla við óveðri

MYND/GVA

Verið er að leggja lokahönd á verklagsreglur um viðbrögð þegar röskun verður á skólastarfi vegna óveðurs og munu þær gilda fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Reglurnar voru kynntar á fundi stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á föstudag en slökkviliðinu var falið að búa þær til í samvinnu við fræðsluyfirvöld.

Að sögn Jóns Viðars Matthíassonar slökkviliðsstjóra var ákveðið að ráðast í gerð reglnanna í kjölfar óveðurs sem gekk yfir landið um síðustu áramót. „Þá raskaðist skólahald og það bárust tilkynningar um að sumir skólar væru lokaðir en aðrir opnir. Það var ekki samhljómur í þessum tilkynningum og því fórum við að vinna að samræmdum verklagsreglum fyrir allt höfuðborgarsvæðið í samvinnu við fræðsluyfirvöld," segir slökkviliðsstjóri.

Jón Viðar segir að ákveðnir grunndvallarþættir séu í verklagsreglunum, til að mynda að skólarnir séu opnir fyrir börn nema í algjörum neyðartilvikum þar sem starfsfólk komist ekki til vinnu. Þá sé einnig sá grundvallarþáttur að foreldrar beri ábyrgð á börnum sínum. „Ef þeir meta það svo að það sé ekki fært ber þeim að tilkynna það," segir Jón Viðar.

Á síðustu árum hefur sjaldan þurft að aflýsa skólahaldi vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu en hér áður fyrr, þegar það var algengara, var lesið upp í útvarpi hvar kennsla félli niður. Jón Viðar bendir á að 80-90 skólar séu nú á höfuðborgarsvæðinu og því sé gert ráð fyrir að ein tilkynning yrði gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið í heild sinni ef til þess kæmi.

Jón Viðar segir slökkviliðið hafa átt gott samstarf við fræðlsuyfirvöld um samningu verklagsreglanna og verið sé að leggja lokahönd á þær. Reglurnar verði svo væntanlega kynntar á blaðamannafundi innan tíðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×