Enski boltinn

Liverpool og Arsenal voru lengi í gang

Van Persie og Nasri skoruðu báðir fyrir Arsenal í dag
Van Persie og Nasri skoruðu báðir fyrir Arsenal í dag AFP

Liverpool og Arsenal unnu bæði sigra í ensku úrvalsdeildinni í dag eftir að hafa verið undir í hálfleik á heimavelli. Liverpool lagði Wigan 3-2 og Arsenal vann Everton 3-1.

Egyptinn Amr Zaki var í stuði á móti Liverpool og kom liði sínu Wigan í 2-1 á Anfield með tveimur mörkum í fyrri hálfleik. Dirk Kuyt hafði áður jafnað metin í 1-1. Daniel Agger var í fyrsta skipti í byrjunarliði Liverpool í deildinni og hann átti alla sök á fyrra marki Zaki eftir klaufagang í vörninni.

Síðari hálfleikurinn var mjög fjörugur og fengu bæði lið ágæt marktækifæri, en vendipunkturinn í leiknum var þegar Antonio Valencia hjá Wigan var vikið af leikvelli 15 mínútum fyrir leikslok.

Fimm mínútum eftir það jafnaði Albert Riera fyrir Liverpool með sínu fyrsta marki fyrir félagið og Dirk Kuyt tryggði liðinu svo sigur með öðru marki sínu fimm mínútum fyrir leikslok.

Liverpool komst með sigrinum upp að hlið Chelsea á toppi deildarinnar og hefur það hlotið 20 stig.

Arsenal smellti sér í þriðja sætið með 3-1 sigri á Everton á heimavelli. Gestirnir höfðu yfir 1-0 í hálfleik með marki Leon Osman í byrjun, en Samir Nasri jafnaði fyrir Arsenal í þeim síðari. Þegar 20 mínútur lifðu leiks skoraði Robin van Persie og varamaðurinn Theo Walcott tryggði svo heimamönnum sigurinn þegar skammt var til leiksloka.

Leikjum Aston Villa-Portsmouth, Bolton-Blackburn og Fulham-Sunderland lauk öllum með 0-0 jafntefli.

Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton og var skipt út af á 78. mínútu, en Hermann Hreiðarsson sat allan tímann á bekknum hjá Portsmouth.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×