Íslenski boltinn

Birkir ætlar að kveðja með sigri

Elvar Geir Magnússon skrifar
Birkir Már í síðasta leik Vals.
Birkir Már í síðasta leik Vals.

Birkir Már Sævarsson mun í kvöld leika sinn síðasta leik fyrir Val, að minnsta kosti í bili, þegar liðið heimsækir KR í stórleik í Landsbankadeildinni. Birkir sagði við Vísi að það væri mikill spenningur fyrir leiknum.

„Þetta er þvílíkur stórleikur enda erum við að fara að mæta okkar erkifjendum. Ég er alveg ákveðinn í að ná að kveðja með sigri," sagði Birkir sem er að ganga til liðs við Noregsmeistara Brann.

„Ég fer út eftir helgi og mun þá ganga frá öllum smáatriðum. Ég mun hitta liðið og horfa á leik með því í Osló. Svo verð ég bara fluttur út í næstu viku," sagði Birkir en æskudraumur hans er að rætast. „Að vinna við að spila fótbolta er bara það besta sem hugsast getur."

KR-ingar hafa verið á mikilli siglingu í síðustu leikjum og með sigri í kvöld verða þeir aðeins einu stigi á eftir efstu liðum. „Þegar þessi lið mætast þá skiptir engu máli hvernig þeim hefur gengið. Það gefa allir allt í svona leiki. Ef við vinnum þá komumst við uppfyrir KR en ef við töpum þá komast þeir vel fyrir ofan okkur. Svo mikilvægi leiksins er mikið," sagði Birkir.

Það er þó ekki ólíklegt að Birkir muni klæðast Valsbúningnum aftur áður en ferli hans líkur enda er hann mikill Valsmaður og er meðal annars með merki félagsins húðflúrað á handlegginn.

Leikur KR og Vals í kvöld hefst klukkan 20:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þá verður hann í beinni textalýsingu hér á Vísi á Boltavaktinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×