Fótbolti

Dönsku leikmennirnir sniðgengu danska fjölmiðla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Jensen fagnar sigurmarki Dana í gær.
Daniel Jensen fagnar sigurmarki Dana í gær. Nordic Photos / AFP

Eftir ótrúlegan 3-2 sigur danska landsliðsins í Portúgal í undankeppni HM 2010 í gær neituðu dönsku landsliðsmennirnir að gefa sig á tal við danska fjölmiðlamenn.

Með þessu vildu þeir mótmæla þeirri umfjöllun sem danska landsliðið hefur fengið í fjölmiðlum síðustu daga. Liðið hefur nú fengið fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjum undankeppninnar en liðið gerði markalaust jafntefli gegn Ungverjum um helgina.

Þetta er einsdæmi í sögu danska landsliðsins sem sýnir hversu alvarlegum augum Danir líta málið. Danska knattspyrnusambandið sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

„Leikmönnum finnst ekki að sá heiðarleiki og liðlegheit gagnvart fjölmiðlum hafi verið tekið með hluthlausri eða gagnrýnni blaðamennsku sem bæði þeir og danska þjóðin búast við af sumum dönskum fjölmiðlum. En nokkrir stóru fjölmiðlanna hafa aftur á móti keyrt áfram neikvæðar herferðir gegn landsliðinu. Ekki síst er það notkun nafnlausra heimildamanna sem þýðir - svo tungumál knattspyrnunnar sé notað - að nýjum botni er náð í sambandi landsliðsins og fjölmiðlamanna."

Fyrirliðinn Jon Dahl Tomasson sagði svo eftirfarandi:

„Við tileinkum þeim sigurinn sem trúðu á okkur. Fólk hefur beðið eftir viðbrögðum liðsins - þau sýndum við á vellinum í dag. Nú viljum við fagna sigrinum með stuðningsmönnum okkar, bæði þeim sem voru á vellinum í dag og sem heima sitja - og okkur sjálfum!"

Jim Stjerne Hansen, framkvæmdarstjóri danska knattspyrnusambandsins, sagði að ástandið væri ekki ákjósanlegt en að hann bæri skilning á aðgerðum landsliðsmannanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×