Íslenski boltinn

Hversu slæm er tölfræði KR-inga gegn FH?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daniel

Ef marka má þróun mála síðustu sumur þá mæta stuðningsmenn KR-inga ekki bjartsýnir í Kaplakrikann í kvöld. FH hefur unnið síðustu sex deildarleiki liðanna með markatölunni 15-1 og KR hefur ekki unnið deildarleik í Hafnarfirði síðan 20. ágúst 1994.

KR hefur samtals fengið eitt stig út úr síðustu níu leikjum liðanna í Landsbankadeildinni og hefur liðið fengið fleiri rauð spjöld en mörk sem liðið hefur skorað á þessum 810 mínútum.

Tölfræði KR í síðustu níu deildarleikjum liðsins við FH:

0 sigrar

1 jafntefli

8 tapleikir

2 mörk skoruð

3 rauð spjöld

24 mörk fengin á sig

Tölfræði KR í síðustu átta deildarleikjum liðsins við FH í Kaplakrika

0 sigrar

2 jafntefli

6 tapleikir

4 mörk skoruð

22 mörk fengin á sig

Það eru alls sex leikmenn í liði FH sem hafa skorað jafnmikið eða meira en allt KR-liðið í síðustu níu leikjum liðanna í Landsbankadeild karla.

Þetta eru þeir Ásgeir Gunnar Ásgeirsson (5 mörk), Guðmundur Sævarsson (4), Atli Viðar Björnsson (2), Jónas Grani Garðarsson (2), Tommy Nielsen (2) og Tryggvi Guðmundsson (2).

KR-ingar eru búnir að skora jafnmörg mörk í eigið mark og í mark FH í síðustu sex deildarleikjum liðanna. Bjarnólfur Lárusson skoraði bæði þessi mörk í Krikanum, fyrst sjálfsmark í 0-2 tapi KR 6. júlí 2006 og svo mark eftir aðeins tíu sekúndur í 1-5 tapi KR í fyrra. Bjarnólfur hefur hinsvegar leikið sinn síðasta leik fyrir KR og verður því fjarri góðu gamni í kvöld.

Tryggvi Guðmundsson, núverandi leikmaður FH, var í síðasta sigurliði KR-inga í Kaplakrika. Tryggvi lagði þá upp seinna mark KR-liðsins fyrir Þormóð Egilsson í 2-1 sigri á FH. Tryggvi er ekki sá eini af leikmönnum leiksins í kvöld sem tók þátt í þessum leik því Kristján Finnbogason stóð í marki KR-liðsins í þessum leik.

Heimir Guðjónsson, núverandi þjálfari FH, var hvíldur í þessum leik þar sem hann var á hættusvæði vegna gulra spjalda og spjald í þessum leik hefði þýtt að hann myndi missa af bikarúrslitaleiknum sem var átta dögum síðar.

Ásgeir Gunnar Ásgeirsson hefur ekki verið með FH til þessa í sumar vegna meiðsla og það er kannski eins gott fyrir KR-inga að hann verði ekki með því hann hefur átti eintóma stórleiki gegn Vesturbæingum á síðustu árum.



Síðustu þrír leikir Ásgeirs Gunnars Ásgeirssonar gegn KR:

30. ágúst 2007 FH-KR 5-1

Ásgeir skoraði þrennnu, fékk 9 í einkunn hjá Fréttablaðinu og var valinn maður leiksins

14. júní 2007 KR-FH 0-2

Ásgeir skoraði fyrra mark FH, fékk 8 í einkunn hjá Fréttablaðinu og var valinn maður leiksins

6. júlí 2006 FH-KR 2-0

Ásgeir skoraði seinna mark FH, átti stóran þátt í því fyrra, fékk 9 í einkunn hjá Fréttablaðinu og var valinn maður leiksins

KR-ingurinn Björgólfur Takefusa á enn eftir að skora á móti FH í KR-búningnum en hann hefur nú leikið í 244 mínútur á móti FH án þess að skora. Björgólfur skoraði 4 mörk í 4 leikjum á móti FH með Þrótti og Fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×