Enski boltinn

Þrjú mörk í mínus hjá Carragher

Jamie Carragher
Jamie Carragher NordicPhotos/GettyImages

Varnarmaðurinn Jamie Carragher varð enn og aftur fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leik Liverpool og Hull á dögunum.

Þetta var sjötta sjálfsmark Liverpool-mannsins á ferlinum og þar með er hann kominn upp að hlið þeirra Frank Sinclair og Richard Dunne yfir þá menn sem hafa skorað flest sjálfsmörk í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Carragher kemur þó verst út úr tölfræðinni þegar horft er til marka sem þremenningarnir hafa skorað á réttum enda vallarins.

Sinclair er sá eini sem er í plús í markaskorun, því hann skoraði átta sinnum í rétt mark á sínum tíma - sjö mörk með Chelsea og eitt með Leicester.

Richard Dunne er á pari ef svo má segja, því hann hefur skorað sex mörk og sex sjálfsmörk fyrir Manchester City.

Carragher er ekki svo heppinn, því hann er þremur mörkum í mínus. Hann á að baki 377 deildarleiki fyrir Liverpool og hefur aðeins skorað þrjú mörk í þeim öllum.

Það er nokkuð merkilegt í ljósi þess að hann skoraði mark strax í sínum þriðja leik fyrir þá rauðu árið 1997, en það var fyrsti leikur hans í byrjunarliði Liverpool.

Síðan þá hefur hann verið duglegri við að skora í eigið mark.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×