Mikið hefur verið rætt um aukin umsvif útlendinga í ensku úrvalsdeildinni á síðustu árum. Þetta endurspeglast vel í tölfræði yfir markaskorun heimamanna í deildinni.
Það er Englendingasveit Aston Villa sem hefur haldið merki heimamanna á lofti í úrvalsdeildinni þetta árið, en fríður hópur landsliðsmanna Villa hafa skorað 21 af 29 mörkum liðsins í deildinni í vetur. Það gerir 72% af mörkum liðsins.
Englendingarnir í Portsmouth koma næstir með 17 mörk, en það er hvorki meira né minna en 89% af þeim 19 mörkum sem liðið hefur skorað í deildinni í vetur. Munar þar mest um þá Peter Crouch og Jermain Defoe sem hafa verið iðnir við kolann á leiktíðinni.
Næst kemur Tottenham, en þar hafa Englendingar skorað 14 af 17 mörkum liðsins (82%) og þar á eftir kemur Newcastle - 13 af 22 (59%).
Liðin tvö sem eru á botninum í þessari tölfræði eru Stoke og Arsenal.
Aðeins eitt af 17 mörkum Stoke í deildinni (6%) hefur verið skorað af Englendingi og þa var mark Danny Higginbotham úr vítaspyrnu.
Á botninum er svo Arsenal, en þar hefur aðeins einn Englendingur skorað mark í deildinni - Theo Walcott. Markið hans markar 3% af 29 mörkum Arsenal í vetur.