Innlent

FME tryggi að hægt sé að rekja allar færslur gömlu bankanna

MYND/SJ

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segist ganga að því vísu að Fjármálaeftirlitið tryggi með störfum sínum að hægt sé að rekja allar færslur og öll viðskipti gömlu viðskiptabankanna. Þetta sagði hann í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, vísaði í fregnir af því að unnið væri að sölu á útibúum viðskiptabankanna sem hrunið hefðu í síðasta mánuði. Sagði hann mikilvægt að viðskiptasaga útibúanna yrði tiltæk hinum sérstaka saksóknara og rannsóknarnefnd sem setja ætti á laggirnar vegna bankahrunsins. Spurði hann ráðherra hvort hann teldi ekki mikilvægt að áður en útibú gömlu bankanna erlendis yrðu seld að Íslendingar fengju aðgang að upplýsingum þar.

Dómsmálaráðherra benti á að skýr skil væru á milli ákæruvalds, lögreglu, skattrannsóknarstjóra og Fjármálaeftirlitsins sem hefðu þessi mál á könnu sinni. Benti hann á að Fjármálaeftirlitið væri farið af stað með rannsókn sína á bankahruninu og það væri stofnunarinnar að gera ákæruvaldi og lögreglu viðvart ef grunur vaknaði um lögbrot. Sagðist hann ganga að því sem vísu að Fjármálaeftirlitið tryggði að þessi saga, færslur og öll viðskipti gömlu bankanna, yrði rekjanleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×