Enski boltinn

Newcastle þokast nær sölu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mike Ashley, núverandi eigandi Newcastle, umkringdur stuðningsmönnum.
Mike Ashley, núverandi eigandi Newcastle, umkringdur stuðningsmönnum.

Salan á Newcastle United er á góðu skriði að sögn Keith Harris hjá fjárfestingabankanum Seymor Pierce. Harris fékk það verkefni að sjá um söluna á félaginu.

Nokkrir fjárfestahópar hafa mikinn áhuga á að eignast Newcastle að sögn Harris. Þrátt fyrir efnahagsástandið í heiminum segist hann fastlega búast við því að núverandi eigandi félagsins, Mike Ashley, verði horfinn á braut í lok tímabils.

„Ég er nokkuð viss um að farsæl lausn finnist fyrir Mike og stuðningsmenn Newcastle," sagði Harris. Newcastle var sett á sölu um miðjan september en Ashley var harðlega gagnrýndur af stuðningsmönnum félagsins eftir brotthvarf Kevin Keegan.

Harris starfaði sem ráðgjafi í sölunni á Aston Villa í hendur Randy Lerner 2006 og þegar Thaksin Shinawatra eignaðist Manchester City í fyrra.

„Newcastle er eitt af fáum félögum sem er ekki skuldum vafið svo það er mjög spennandi kostur fyrir verðandi eigendur," sagði Harris en hugsanlegir kaupendur fá frest til 17. október til að lýsa formlega yfir áhuga á félaginu. Talið er að það fáist á um 280-300 milljónir punda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×