Íslenski boltinn

Þrjú rauð spjöld á ÍA sem tapaði á KR-vellinum

Elvar Geir Magnússon skrifar

KR vann 2-0 sigur á ÍA í Landsbankadeildinni í kvöld. Garðar Örn Hinriksson dómari gaf Skagamönnum þrjú rauð spjöld, þar á meðal þjálfaranum Guðjóni Þórðarsyni.

KR-ingar eru í þriðja sæti deildarinnar en Skagamenn eru hinsvegar í erfiðri stöðu í næstneðsta sæti.

KR komst yfir eftir um hálftíma leik. Eftir mikinn darraðardans á línu Skagamanna var dæmt mark. Ekki var hægt að sjá hvort þetta væri mark eða ekki eða hver hefði skorað það. Eftir því sem best er hægt að sjá í sjónvarpi var það Grétar Sigfinnur Sigurðsson. Margir héldu að þetta væri ekki mark en aðstoðardómari flaggaði að boltinn hefði farið inn fyrir línuna.

Vjekoslav Svadumovic fékk síðan rauða spjaldið skömmu síðar. Svadumovic fékk fyrst gult spjald fyrir að sparka í markvörð KR er hann sparkaði frá marki sínu. Svadumovic mótmælti og fékk annað gult og þar með rautt.

Guðjón Þórðarson fékk síðan brottvísun í hálfleik og á 62. mínútu innsiglaði KR sigurinn. Pétur Marteinsson skallaði, markvörður ÍA hélt ekki boltanum er hann varði og Björgólfur Takefusa tók frákastið og skoraði af stuttu færi. Sjötti leikurinn í röð sem Björgófur skorar í.

Bjarni Guðjónsson fékk síðan að líta rauða spjaldið hjá Garðari Erni fyrir sitt annað gula spjald á 69. mínútu. ÍA kláraði því leikinn tveimur mönnum færri.

Fylgst var með leiknum á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.

KR - ÍA 2-0 (leik lokið)

Breiðablik - Keflavík 2-2 (leik lokið)










Fleiri fréttir

Sjá meira


×