Enski boltinn

Flensa frestar endurkomu Kieron Dyer

NordicPhotos/GettyImages

Meiðslakálfurinn Kieron Dyer mun ekki fullkomna endurkomu sína með West Ham eins snemma og ætlað var. Kappinn lagðist í flensu eftir að hafa spilað 45 mínútur í æfingaleik á dögunum.

Meiðslasaga þessa fyrrum enska landsliðsmanns hefur verið með hreinum ólíkindum síðustu ár og hefur hann aðeins náð að spila þrjá leiki fyrir liðið.

Hann hefur ekki spilað síðan hann tvífótbrotnaði í ágúst á síðasta ári. Dyer verður þrítugur um jólin og á að baki 33 landsleiki.

Líklegt verður að teljast að hann leggi skóna á hilluna ef hann nær sér ekki að fullu að þessu sinni, en meiðsli hans eru eðlilega farin að hafa talsverð áhrif á sálartetrið.

"Honum seinkar nokkuð af því hann hefur misst úr svo margar æfingar. Ég hugsa að það myndi hafa áhrif á hvaða leikmann sem er að vera svona lengi frá keppni, en hann getur vonandi farið að sjá ljósið í myrkrinu. Nú þarf hann bara að koma sér í leikform og þá verður honum tekið fagnandi," sagði Steve Clarke aðstoðarstjóri West Ham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×