Innlent

Sígarettusala í fríhöfnum um átta prósent af heildarsölunni

Um 1,2 milljónir pakka af sígarettum voru seldar í fríhafnarverslunum á Keflavíkurflugfelli, Reykjavíkurflugvelli og Akureyrarflugvelli í fyrra. Þetta kemur fram í svari Árna Mathiesen fjármálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Ásta spurði hversu mikið af tóbaki væri flutt tollfrjálst inn í landið í gegnum fríhafnirnar og hversu stór hluti það væri af heildarsölu tóbaks. Fram kom í svörum ráðherra að um 14,6 milljónir sígarettupakka hefðu alls verið seldar hér á landi í fyrra og því væri sala í fríhafnarverslunum um átta prósent af heildarsölunni.

Algengt verð á sígarettupakka í fríhöfn er um 300 krónur en hann er rúmlega tvöfalt dýrari í búðum hér þar sem búið er að leggja tóbaksgjald á hann. Fram kom í svari ráðherra að árlegt tekjutap ríkisins af verslun með tóbak í fríhöfnum landsins væri um 490 milljónir króna.

Ásta spurði einnig hvaða rök væru fyrir því að selja tóbak í fríhafnarverslun hér á landi. Ráðherra svaraði því til að tóbak væri dæmigerð vara í fríhafnarverslunum um allan heim. „Verði skattfrjálsri tóbakssölu hætt í fríhafnarverslunum á Íslandi má gera ráð fyrir því að meginhluti þeirrar tóbakssölu sem í dag fer fram hérlendis flytjist til erlendra fríhafna. Slík ráðstöfun mundi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á tekjuöflunarmöguleika og umsvif innlendrar fríhafnarverslunar, jafnframt því að auka á útstreymi gjaldeyris. Öll rök standa því til þess að skattfrjálsri tóbakssölu verði viðhaldið í íslenskum fríhöfnum, ella væri verið að stuðla að flutningi verslunar úr landi," segir ráðherra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×