Fótbolti

Leikir dagsins í undankeppni HM

Austurríkismenn unnu frækinn 3-1 sigur á Frökkum í kvöld
Austurríkismenn unnu frækinn 3-1 sigur á Frökkum í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Nokkur óvænt úrslit litu dagsins ljós í fyrstu leikjunum í undankeppni HM sem fram fóru í dag. Hæst bar 2-2 jafntefli íslenska landsliðsins í Noregi, en í sama riðli töpuðu Skotar 1-0 fyrir Makedónum á útivelli.

Í fyrsta riðli náðu Albanir 0-0 jafntefli heima gegn Svíum og Ungverjar náðu sömu úrslitum heima gegn Dönum. Portúgalir lögðu Maltverja örugglega 4-0 á útivelli þar sem Almeida, Simao og Nani skoruðu fyrir gestina, en fyrsta mark leiksins var sjálfsmark.

Í öðrum riðli unnu Lettar Moldóva 2-1 á útivelli, Ísrael og Sviss gerðu 2-2 jafntefli og Grikkir lögðu Lúxemburg 3-0 á útivelli.

Í þriðja riðli gerðu Pólland og Slóvenía 1-1 jafntefli og Slóvakar unnu góðan 2-1 sigur á Norður-Írum.

Í fjórða riðli vann Wales 1-0 sigur á Azerum með marki undir lokin eftir að gestirnir höfðu misst mann af velli. Walesverjar klúðruðu víti í leiknum. Þá vann Þýskaland 6-0 stórsigur á Liechtenstein á útivelli þar sem Lukas Podolski skoraði tvívegis fyrir þýska liðið.

Í fimmta riðli unnu Tyrkir sigur á Armenum á útivelli 2-0, Belgar lögðu Eista 3-2, en leik Spánverja og Bosníumanna er ekki lokið (staðan 0-0 í hálfleik).

Í sjötta riðli unnu Úkraínumenn 1-0 sigur á Hvít-Rússum, Englendingar mörðu Andorra 2-0 og Króatar unnu 3-0 sigur á Kazakstan.

Í sjöunda riðli tapaði Rúmenía 3-0 heima fyrir Litháen, Serbar unnu Færeyinga 2-0 og óvænt úrslit litu dagsins ljós þegar Austurríkismenn skelltu Frökkum 3-1 á heimavelli.

Í áttunda riðlinum unnu Írar 2-1 útisigur á Georgíu, Svartfellingar og Búlgarar skildu jafnir 2-2 og Ítalir mörðu sigur á Kýpur á útivelli 2-1 þar sem hinn magnaði Di Natale skoraði bæði mörk heimsmeistaranna - það síðara í uppbótartíma.

Í níunda riðli skildu svo Norðmenn og Íslendingar jafnir 2-2 eins og áður sagði og Skotar töpuðu 1-0 í Makedóníu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×