Innlent

Hnífsstunguárás: Ákvörðun um gæsluvarðhald tekin síðar í dag

Ekki hefur verið ákveðið hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir tvítugum pilti sem handtekinn var í gærkvöldi í tengslum við hnífsstunguárása á Hlemmi. Fertugur karlmaður var stunginn í bak og öxl og var pilturinn handtekinn í kjölfarið. Lögreglan hefur frest til klukkan 19:00 í kvöld til þess að ákveða hvort krafist verði gæsluvarðhalds.

Maðurinn var stunginn á sjöunda tímanum í gærkvöldi en samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á gjörgæsludeild er hann á batavegi. Maðurinn fór strax á gjörgæsludeild og hefur verið þar síðan, hann fer þó líklegast á almenna skurðdeild síðar í dag.

Árásin átti sér stað á Hlemmi og gekk maðurinn sjálfur yfir á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem lögreglumenn veittu honum fyrstu hjálp. Fjöldi fólks varð vitni að árásinni og hefur lögregla þegar yfirheyrt vitni og árásarmanninn. Einnig er stefnt að því að yfirheyra fórnarlambið í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×