Innlent

Norðmaðurinn hættur störfum fyrir Geir

Norðmaðurinn Björn Richard Johansen, ráðgjafi Geirs H. Haarde forsætisráðherra, hefur lokið störfum fyrir forsætisráðuneytið. Björn Richard var í viðtali í Kastljósinu í kvöld þar sem hann sagði að verkefni hans hafi verið að koma upp neyðaráætlun fyrir stjórnvöld í kjölfar bankahrunsins og því verki sé nú lokið.

Björn Richard segir alrangt að hann hafi ráðlagt stjórnvöldum að halda forsvarsmönnum Fjármálaeftirlitsins frá kastljósi fjölmiðla eins og haldið hefur verið fram. Þvert á móti hafi hann gagnrýnt sambandsleysi FME við fjölmiðla. Hann segir einnig rangt að hann hafi ráðlagt ríkisstjórninni að halda blaðamannafundi sína seint um daginn til þess að gera fjölmiðlum erfitt fyrir að vinna úr upplýsingum sem þar komu fram. Hins vegar hafi margt gerst á fyrstu dögum hrunsins og því hafi verið best að hafa fundina síðdegis til þess að koma sem mestum upplýsingum á framfæri.

Eins og bent hefur verið á í Kastljósinu hélt Björn Richard áfram að vinna fyrir sinn gamla vinnuveitenda, Glitni, eftir að hann hóf störf í ráðuneytinu. Í kvöld viðurkenndi hann að það hefðu verið mistök en benti á að mikið gangi á á krísutímum. Hins vegar mætti segja að hann hafi í raun verið ríkisstarfsmaður hjá Glitni þar sem ríkið hafði tekið yfir bankann á þessum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×