Íslenski boltinn

Hlakka til að spila með Keflavík aftur

Jóhann hlakkar til að koma og spila með Keflavíkurliðinu á ný
Jóhann hlakkar til að koma og spila með Keflavíkurliðinu á ný

Miðjumaðurinn Jóhann B. Guðmundsson hjá Gais í Svíþjóð er á leið heim til Keflavíkur eftir rúman áratug í atvinnumennsku erlendis. Vísir náði tali af Jóhanni í dag og spurði hann hvernig honum litist á að koma heim á ný.

"Það er nánast komið í höfn að ég muni koma heim og spila með Keflavík, en það er ekki alveg komið á hreint hvenær það verður. Gais vill halda mér í tvö leiki í viðbót og ég reikna með að verða jafnvel í byrjunarliðinu í næsta leik sem er á sunnudaginn. Svo er þetta spurning um einn leik í viðbót þar sem þeir vilja hafa mig til taks, en ég held að hann sé 28. júlí. Þeir ráða því alveg hérna," sagði hinn þrítugi Jóhann í samtali við Vísi.

Keflvíkingar hafa boðið Jóhanni samning út þetta tímabil og þrjú ár til viðbótar og hlakkar hann til að koma aftur heim að spila.

"Keflavíkurliðið er að spila vel í sumar og ég hlakka til að spila með þessum strákum aftur þó þeir séu nú ekki nema tveir eftir síðan ég var þarna síðast þegar við urðum bikarmeistarar á sínum tíma."

Jóhann yfirgaf herbúðir Keflvíkinga árið 1998 og hélt á vit ævintýranna hjá Watford á Englandi þar sem hann lék meðal annars níu leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 1999-2000. Þaðan var förinni heitið til Lyn í Noregi árið 2001 og loks til Örgryte í Svíþjóð árið 2004 áður en hann fór til GAIS árið 2006.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×